Höfuðkúpa af fullvöxnum rostungi fannst í Garðafjöru á sunnanverðu Snæfellsnesi síðastliðinn föstudag. Voru það ferðamenn sem dvöldu á gistiheimilinu Langaholti sem gengu fram á beinin. Höfuðkúpan er heilleg, aðeins vantar tvær tennur í kjálkana og skögultennurnar, sem ganga úr efri skolti dýranna og eru einkennandi fyrir þessa stórvöxnu tegund, eru báðar á sínum stað.
Rostungar lifa í sjó á norðurslóðum og Atlantshafsstofnar tegundarinnar eru tveir. vesturstofninn heldur til í og við Hudson-flóa, milli Grænlands og Kanada en austurstofninn eyðir ævi sinni við austurströnd Grænlands annars vegar og við Svalbarða og norðurströnd Rússlands hins vegar. Brimlar atlantshafsstofnsins eru um þrír metrar að lengt og geta vegið allt að heilu tonni. Urturnar eru um hálfum metra styttri og vega milli 600 og 800 kg.
Nokkuð hefur þó fundist af beinaleifum rostunga við Íslandsstrendur í gegnum tíðina, einkum á Vesturlandi. Þykir því sýnt að rostungar hafi flækst hingað allt fram á 19. öld. Flækingar rostunga eru hins vegar afar sjaldgæfir nú á tímum.
Ekki hefur enn fengist staðfest hve gömul bein rostungsins sem fundust við Garðafjörur eru, en samkvæmt heimildum Skessuhorns telja þeir sem þegar hafa skoðað þau að þau séu komin nokkuð til ára sinna.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is