Dauður hvalur fannst á Löngufjörum, ekki langt frá Gistihúsinu Langaholti að Ytri-Görðum á sunnanverðu Snæfellsnesi, á laugardaginn síðasta. Þorkell Símonarson, Keli vert í Langaholti, telur að hvalinn hafi rekið á land einhvern tímann í síðustu viku. „Það hefur ekki verið mikið veður til útivistar hér síðasta hálfa mánuðinn eða svo, eða þar til á laugardag að veðrið var fallegt og þá rákumst við á hvalinn þar sem við gengum eftir fjörunni og nutum útiverunnar. Þó er ekki ýkja langt síðan ég fór þarna um síðast, þannig að hvalurinn gæti hafa komið á land í byrjun síðustu viku,“ segir Keli í samtali við Skessuhorn. „En maður veit aldrei hvað svona hvalur hefur verið dauður lengi í sjónum áður en hann rekur á land,“ bætir hann við.
Keli segir hvalinn nokkuð stóran, um átta metra langan frá sporði og fram að frambægslinu. Allt þar fyrir framan er hins vegar á kafi og áætlar hann því að dýrið gæti verið allt að því tíu metrar að lengt, eftir því hve mikið leynist undir yfirborðinu. Af þeim sökum kveðst hann heldur ekki þekkja tegundina. „Hausinn er á kafi þannig að við þekkjum ekki tegundina í sjón,“ segir hann. „Ég ræddi við kunningja minn sem er hvalasérfræðingur og hann gat ekki tegundargreint hvalinn af myndinni. En hann taldi að hvalurinn hefði verið dauður í svolítinn tíma áður en hann rak á land,“ bætir Keli við.
Ýmislegt hefur rekið á land á Löngufjörum í gegnum tíðina; rostungavé, tennur og bein ýmiss konar. Hvalrekar eru hins vegar sjaldgæfir en þó þekktir. „Síðustu áratugina hefur einn og einn dauðan hval rekið á land. En það eru örugglega liðin 20 ár eða svo síðan þann síðasta rak á land. En ég man eftir fleirum frá því ég var strákur,“ segir Keli.
Aðspurður kveðst hann ekki vita hvort komi til þess að urða þurfi dýrið. „Ef það er einhver möguleiki að láta rotna af beinunum en bjarga grindinni og hafa hana einhvers staðar til sýnis þá væri það mjög skemmtilegt, en ég veit ekki hvort það er hægt. Við verðum bara aðeins að sjá hvernig þetta þróast. Þegar eru sunnanáttir eins og verið hefur undanfarið, þá er oft mikið brim og mikil læti í fjörunni. Mikið efni sem mokast fram og til baka. Við skulum sjá hvernig honum reiðir af. Ef hann verður til vandræða þá fer ég með gröfuna og gref hann þarna í fjörunni. En ef hann getur rotnað þarna í friði og verður engum til ama þá leyfum við honum bara að hverfa af sjálfsdáðum,“ segir Keli. „Þetta er eins og með allt annað, það verður bara að tækla vandann þegar hann kemur upp. Það er heppilegt að hann er ekki í alfaraleið, fólk gengur gjarnan um fjörurnar hér beint fyrir neðan á sumrin. Ef fólk langar að skoða hann þá verður að keyra niður að ströndinni og ganga um kílómeters leið. Það er svosem ekki mikið að sjá, en nokkrir hafa farið og tekið „selfie“ með honum til að geta sagst hafa séð dauðan hval,“ segir Keli að lokum, léttur í bragði.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is