Litlu munaði að algert uppnám yrði á hinni árlegu bjúgnahátíð í Langaholti í Staðarsveit á dögunum. Bjúgnakrækir sjálfur mætti nefnilega til byggða, löngu fyrir áætlaðan komutíma og setti veisluhöldin eilítið úr skorðum. Jólasveinninn óð í hvern bjúgnaréttinn á fætur öðrum og á tímabili leit út fyrir að ekkert yrði eftir handa öðrum gestum hátíðarinnar. „Þetta er mikið meira en þið þurfið,“ heyrðist í Bjúgnakræki þegar hann ruddist inn í matsal Langaholts á bjúgnahátíðinni, hrifsaði með sér tvo rétti af hlaðborðinu og var samstundis rokinn út bakdyramegin.
„Ég bara ræð ekki við mig þegar kemur að bjúgum,“ segir Bjúgnakrækir jólasveinn þegar Skessuhorn spyr um atvikið. Ekki er þó að merkja neina iðrun í orðum hans. „Ég frétti af þessari himnesku hátíð og laumaðist til byggða þegar mamma og kattarófétið sáu ekki til, löngu fyrir settan dag, ef svo má segja,“ segir hann, en Bjúgnakrækir kemur vanalega ekki af fjöllum í bókstaflegri merkingu fyrr en 20. desember ár hvert. „Þarna voru bjúgu með bernaisesósu, bjúgna-Wellington, buffalóbjúgu, bjúgnapitsur, hreindýrabjúgu, rónahryggur og ég veit ekki hvað og hvað og nammi, nammi, namm!“ segir jólasveinninn dreyminn og nokkuð utan við sig þegar hann hugsar til kræsinganna. „En uppáhaldið mitt, sem ég borðaði hvað mest af, eru að sjálfsögðu reykt hrossabjúgu með Stúf… nei, ég meina uppstúf!“ segir Bjúgnakrækir og ætlar gersamlega að rifna úr hlátri.
„Ég elska bjúgu. Bjúgu eru besti matur í heimi! Þetta var besti dagur lífs míns og ég ætla að borða bjúgu í alla mata fram að jólum og yfir hátíðirnar og langt fram á næsta ár, eins og ég er vanur,“ segir Bjúgnakrækir og bætir því við að hann hafi komist í tæri við dásamlegan rétt á bjúgnahátíð í Langaholti, rétt sem hann hafði aldrei bragðað áður. „Ég hef fussað og sveiað lengi yfir þessu „kjöt í karrý“ sulli sem Ketkrókur og aðrir sem ekkert vit hafa á mat masa mikið um. Mikið betri þykir mér réttur sem ég smakkaði á bjúgnahátíðinni; bjúgu í „kókos og karrý“. Mér tókst með miklum klókindum að stela uppskriftinni að þessum guðdómlega mat á leið minni í gegnum eldhúsið,“ segir jólasveinninn hróðugur. „Þar segir að skera skyldi einn til tvo lauka eftir smekk og steikja létt í potti upp úr dágóðri klípu af sméri. Því næst er bætt út í einni matskeið af gulu dufti sem er víst kallað „karrý“ og leyft að malla með lauknum og smjörinu í um það bil tvær mínútur, þar til tveimur matskeiðum af hveiti er bætt út í og hrært saman við. Því næst er tekin ein dós af einhverju sem heitir „kókosmjólk“ og ég hafði aldrei heyrt um áður en tókst að verða mér út um með miklum klókindum og smá bjúgnasoði þar til ákjósanlegri þykkt er náð. Því næst er niðurskornu bjúga bætt út í sósuna og einnig þykir mér gott að bæta út í soðnum gulrótum og kartöflum og bera svo herlegheitin fram með soðnum hrísgrjónum,“ segir Bjúgnakrækir. „Þetta þykir mér svo frumlegur, en guðdómlega bragðgóður réttur, að ég ætla að elda hann eins oft og mér tekst að verða mér úti um þessi skrýtnu hráefni sem þarf til að elda hann,“ segir Bjúgnakrækir að endingu.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is