Frá því um síðasta vetur hefur staðið yfir bygging tveggja viðbygginga við Gistiheimilið Langaholt á Snæfellsnesi. Þorkell Sigurmon Símonarson, eða Keli vert eins og hann er betur þekktur, vill ekki fullyrða um hvenær viðbyggingarnar verði opnaðar. „Þær verða opnaðar sem fyrst. Maður þorir ekki að segja meira; það virðist nefnilega alltaf bætast frekar við verkið en hitt. Ég held að það sé samt ekki alltof langt í að við getum farið að nýta þær. Með viðbyggingunum erum við að tvöfalda fjöldan sem getur gist hjá okkur. Eins og staðan er núna þá erum við með 20 herbergi en þegar framkvæmdum lýkur verða hér 40 herbergi,“ segir Keli.
Keli hefur rekið Langaholt í rúman áratug. „Ég tók við þessu af foreldrum mínum fyrir rúmum áratug síðan. Fljótlega eftir að ég tók við skall hér á hrun og þetta hefur því verið bras en nú erum við loksins komin á skrið aftur. Með þessum herbergjum sem við erum að bæta við erum við ekki bara að auka plássið heldur einnig að færa okkur inn í nútímann. Aðalbyggingin er frá árinu 1985 og á þeim tíma voru allt aðrar kröfur bæði frá gestum sem og eftirlitsstofnunum. Þetta er fyrsta stóra framkvæmdin sem farið hefur verið í síðan ég byrjaði. Ég hef öðlast reynslu á þeim tíma sem ég hef stýrt þessu og veit hvað það er sem fólk vill og eitt það helsta sem við höfum hér er útsýnið á Snæfellsjökul. Ég tók því þá ákvörðun að öll herbergin í nýju byggingunum skyldu snúa að Jöklinum. Önnur ástæðan af hverju við erum að þessu núna er sú staðreynd að það er erfitt að reka litla staði. Við viljum bjóða upp á ákveðin gæði og eitt af því er að bjóða upp á góðan mat. Við getum ekki haldið uppi góðum veitingastað með 20 herbergja gististað svo ef við ætlum að gera það þurftum við að stækka. Gott útsýni, góður matur og þægindi er grunnurinn í þeim rekstri sem við erum í svo það verður að vera í lagi,“ segir Keli.
Keli segist hafa fundið vel fyrir aukningu á gistiheimilinu undanfarin ár. „Ísland er í tísku og ferðaþjónustan blómstrar á meðan. Það er aukning hvert sem litið er í þessum bransa. Við sjáum það að síðustu fjögur ár höfum við rekið þetta gistiheimili allt árið um kring. Samt sem áður eru tölurnar um þessa sprengju í ferðaþjónustunni villandi. Það hefur vissulega verið aukning í því hversu margir koma en það hefur ekki verið eins mikil sprenging og menn vilja vera láta. Dvölin hefur t.d. styst hjá fólki. Gistinæturnar eru því orðnar færri hjá hverjum einstaklingi. Fólk er núna oft á tíðum bara að koma í fáeina daga,“ segir Keli.
„Ferðamannabransinn er orðinn nýja gullæðið. Það þarf samt ekki mikið að gerast svo að upp komi áföll í bransanum. Við búum við hagstæða tíma eins og er. Fólk vill koma og skoða þetta litla dularfulla land núna en það getur alltaf breyst. Það er mikil óvissa í þessum bransa og hann er ungur hér á landi. Fólk er enn að fóta sig og ekki síst yfirvöld. Yfirvöld virðast ekki alveg vera með puttann á púlsinum; við höfum séð það marg ítrekað undanfarið eins og með vegi, klósettaðstöðu og annað.“
Keli segir erfitt að átta sig á þeim bransa sem ferðaþjónustan er. „Fólk bjóst ekki við því þegar þetta gistiheimili var opnað 1985 að fólk færi að fljúga yfir hálfan hnöttinn til þess eins að sjá norðurljós. Fólk bjóst reyndar ekki við því að ferðaþjónusta væri eitthvað sem Íslendingar gætu grætt á árið 1985 ef út í það er farið. Fólk hristi bara hausinn þegar foreldrar mínir byggðu þetta en á sama tíma voru allir að byggja yfir refi og stunda þann iðnað. Ég held að foreldrar mínir hafi veðjað á réttan hest þar. Það sem maður hefur lært um þennan bransa eftir öll þessi ár er að maður veit ekkert um hann,“ segir Keli.
Keli segir að aðal ástæðan fyrir því að hann reki Langaholt sé sú að hann vill búa á Snæfellsnesi. „Flesta daga er þetta mjög skemmtilegt starf en stundum hugsar maður hvers vegna maður er í þessu, sérstaklega þegar maður stendur í svona framkvæmdum. Ég vinn bara sem bóndi á annan hátt en þeir sem eru hérna í kring. Ég sel ekki uppskeru eða dýrafurðir, ég sel minningar. Þetta er mín leið til að búa hérna á Snæfellsnesi og því ég vil hvergi annars staðar vera,“ segir Keli að endingu.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is