Unnið er hörðum höndum að stækkun gistiheimilisins að Langaholti á Ytri Görðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Auka á gistirými um helming og bæta móttöku fyrir gesti. „Við erum að bæta við 20 herbergjum til viðbótar hjá okkur og verðum þá alls með 40 herbergi þegar þessum framkvæmdum verður lokið. Það var sótt um leyfi fyrir þessari stækkun fyrir þremur árum en þá voru ekki forsendur til að fara í þessar framkvæmdir. Við endurnýjuðum svo umsóknina síðastliðið haust og hófum framkvæmdir í vetrarbyrjun,“ segir Keli Vert eða Þorkell Símonarson sem á og rekur Langaholt ásamt fjölskyldu sinni.
Keli segir að nýbyggingin sé í raun í tveimur hlutum og lýsir þessu frekar. „Annar þeirra kemur við þann enda á núverandi gisti- og veitingabyggingu og snýr niður að sjó. Sá hluti verður á tveimur hæðum. Þarna er halli í landinu þannig að efri hæðin verður í sömu hæð og núverandi bygging en svo er hæð undir. Öll herbergin í þessum hluta verða með útidyr og útsýni mót vestri, það er í átt að Snæfellsjökli. Þau á efri hæðinni verða hvert um sig með svalir og hin á neðri hæðinni með stétt fyrir framan þannig að fólk getur setið úti og haft það huggulegt og notið sólar og ægifagurs útsýnis. Svo er gangur á báðum hæðum meðfram öllu austanmegin sem vísar inn í herbergin. Hinn hlutinn af þessum nýbyggingum er svo við endann þjóðvegarmegin. Þar verða herbergi og ný gestamóttaka.“
Keli upplýsir að nýju húsin verði úr forsteyptum einingum sem framleiddar eru af Esjueiningum á Esjumelum ofan við Mosfellsbæ. „Þetta verður allt saman með nýjustu kröfum með baði á hverju herbergi. Síðan fjárfestum við í stórri varmadælu til að hita upp húsin hér. Við búum á svokölluðu köldu svæði og þurfum að spara dýrt rafmagnið og sækjum því hitann með því að leggja varmadælukerfi í jörðina.“
Keli bendir í kringum sig þar sem við sitjum að spjalli í matsalnum á Langaholti. „Þessi hús sem við erum í voru jú að mestu byggð fyrir einum 30 árum. Þá var ferðaþjónusta á Íslandi allt annar atvinnuvegur en hún er í dag. Það fengust ekki einu sinni lán til að byggja upp gistiaðstöðu í sveitum landsins. Allir gátu fengið fé í loðdýrarækt en enginn í ferðaþjónustu. Foreldrar mínir byggðu fyrsta húsið og það var skráð sem vélageymsla svo hægt væri að fá fjármagn. Henni var svo breytt í gistiaðstöðu og margir héldu að þau væru orðin geggjuð að fara út í þetta. En þetta er hér enn,“ segir Keli.
Reksturinn hefur staðið ýmislegt af sér í gegnum árin en svartast var útlitið eftir bankahrunið 2008. Keli segir að tekist hafi að komast fyrir þau áföll og nú sé Langaholt búið að rétta úr kútnum. Hann dregur hvergi dul á að ferðaþjónusta í sveitum landsins sé skemmtileg atvinnugrein og á spjalli hans má auðveldlega merkja að hún er honum bæði vinna og áhugamál. „Því meiri litbrigði og fjölbreytni í bransanum, þess betra. Við ætlum að halda áfram að vera við sjálf og halda þeim blæ sem verið hefur á Langaholti. Við viljum að gesturinn fá þá tilfinningu að hann sé kominn inn í eins konar íslenskan sveitaveruleika þó hér hafi reyndar búskapur lagst af þegar við gerðumst ferðaþjónustubændur. Maturinn hér er af svæðinu, bæði landbúnaðar- og sjávarafurðir og við byggjum á því að vera bara við sjálf; ósköp venjulegir Íslendingar í sínu eigin umhverfi.“
Það er opið í Langaholti í vetur. „Það var líka opið í fyrra og veturinn þar áður,“ segir Keli. „Nú í vetur starfa hér fjórar manneskjur. Hingað kom síðast í gær í gistingu og mat hópur af bandarískum ferðamönnum sem eru í ævintýraför til Íslands um hávetur. Ég held að óhjákvæmilega muni flestir sem eru í ferðaþjónustu í dag hafa opið allt árið. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan þá var vetrarferðamennska nokkuð sem hvarflaði ekki að neinum. Þá þótti gott í sveitum að ná sæmilegum einum til þremur mánuðum í umferð á ári.“
Keli segir að nú standi yfir svipuð barátta varðandi vetrarferðmennsku og sú sem háð var fyrir einum 30 – 40 árum síðan þegar ferðaþjónustan á Íslandi var að slíta barnsskónum. „Þá þurfti svolítið að sannfæra fólk um að einhver hefði áhuga á að koma og skoða fjall eða hvali eða lunda eða hvað sem er sem gleður erlenda ferðamenn. Þeir sem hafa ekki trú á vetrarferðaþjónustu tala með svipuðum hætti og þeir sem ekki höfðu trú á að Ísland gæti orðið jafn vel sótt ferðamannaland og raun varð. Það segir mér bara að það er vel hægt að byggja upp vetrarferðaþjónustu á Íslandi. Við verðum þó muna að á veturna er eftirspurn eftir öðruvísi hlutum, þá kemur öðruvísi fólk og með annað hugarfar en sumarferðamennirnir.“
Framkvæmdirnar í Langaholti hófust 30. október síðastliðinn og þeim á að ljúka á þessu ári. „Ég ætla samt ekkert að byrja að bóka í þetta fyrr en ég sit með vottorð í höndunum um að þetta sé orðið fokhelt. Veður hljóta að ráða. Núna er til að mynda kuldakast í kortunum þannig að við getum ekki klárað að steypa saman alla sökklana. Og það verður ekki byrjað að reisa fyrr en þeir eru klárir. Þetta verður bara að hafa sinn gang,“ segir Keli.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is