Þorkell Símonarson, betur þekktur sem Keli vert, hefur rekið gistihúsið og veitingastaðinn Langaholt í Staðarsveit á Snæfellsnesi í ellefu ár en þar á undan var staðurinn í höndum foreldra hans. „Við erum með fullvinnslueldhús sem þýðir að öll vinnsla matvælanna er unnin á staðnum. Við höfum einnig alla tíð lagt mikla áherslu á að nýta hráefni úr héraði. Við kaupum fiskinn á markaði í nágrenninu, bláskelin kemur úr Breiðafiðri og svo hef ég verið að fikra mig áfram með kálfakjöt sem ég fæ hjá bændum í sveitinni,“ segir Keli í samtali við blaðamann. „Við kaupum fiskinn í heilu lagi og sjáum sjálf um að meðhöndla hann, t.d. að flaka og reykja. Svo erum við bara að gera allan skrattann, eins og að búa til marmelaði, sultur, álegg og svo höfum við verið að fikta við ostagerð. Þetta er þó allt bara fyrir veitingastaðinn, við erum ekki að selja þetta sérstaklega eða neitt slíkt,“ bætir hann við.
Matseðillinn í Langaholti er breytilegur og fer algjörlega eftir því hráefni sem til er hverju sinni. „Hugmyndafræðin okkar er að vinna eins og hægt er með það sem til er í grenndinni. Það þýðir vissulega að matseðillinn er sífellt að breytast, en það er líka skemmtilegt. Mín skoðun er að maður á ekki að vera að hefta sig við fastan matseðil heldur bara þefa aðeins út í loftið og sjá hvað er til og nota það,“ segir Keli og hlær. Hann segir vissulega alltaf til fólk sem kemur og vill geta fengið sinn ostborgara með frönskum. „Við erum bara ekki með þannig veitingastað, en það er líka ekki eins og það sé ekki til nóg af þeim. Ég trúi því bara að ef maður vill vera með afgerandi góðan veitingastað er ekkert vit í að reyna að hafa matseðil þar sem allir eigi að geta fundið eitthvað fyrir sig. Við viljum vera góð í því sem við erum að gera og hafa okkar matseðil einstakan,“ bætir hann við.
Erlendir ferðamenn er stór hluti viðskiptavina í Langaholti og segir Keli að þeir séu langflestir mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag. „Hingað kemur fólk sem vill fá að upplifa matinn og það er gert t.d. með því að gefa því mat úr nærumhverfinu. Þetta er í það minnsta mín skoðun og mín upplifun. Mér finnst það partur af heimsóknum mínum á veitingastaði í öðrum landhlutum að fá að finna hvernig nærumhverfið er ráðandi,“ segir Keli og bendir á að á Snæfellsnesi sé það sjávarfangið sem ráði helst ríkjum. „Svo eru önnur héruð þar sem landbúnaðurinn er meira ríkjandi eða kannski gróðurhúsin og það er svo skemmtilegt að fá að upplifa svæðin í gegnum matinn og veitingastaðina.
Hér áður fyrr var þetta bara hagræðing. Það var auðveldast að fá matvælin úr héraði ef maður vildi hafa þau fersk. Það hætti svo að vera svoleiðis og þá breyttist þetta og maður fór að sjá alltaf eins matseðla hjá öllum. Núna er þetta samt að komast í tísku aftur, að vera með mat úr héraði en margir þessara veitingastaða eru með þessu verksmiðjulega sniði, með þennan hefðbundna matseðil, en hafa svo einn rétt úr héraði og hampa honum alveg rosalega. Mér finnst það frekar kjánalegt. Hjá okkur er þetta alls ekki svona, það kemur allt úr héraði,“ segir Keli og bætir því við að hann vilji gefa sínum viðskiptavinum upplifun með matnum. „Ég vil að staðurinn, húsið og maturinn hafi karakter og tóni við svæðið. Fólk sem kemur til okkar er ekki að leita að pylsu, samloku eða slíku, það vill fá góðan mat með upplifun,“ bætir Keli við að lokum.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is