Einn af brautryðjendum í ferðaþjónustu bænda á Vesturlandi er Símon Sigurmonsson í Görðum á Snæfellsnesi. Símon byggði upp og rak Gistihúsið Langaholt í Görðum ásamt Svövu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni, en þau hjón hófu að reka ferðaþjónustu árið 1977. Uppbyggingin átti sér stað í hægum en öruggum skrefum og í fyrstu ráku þau ferðaþjónustuna meðfram búskap. Árið1986 skiptu þau hins vegar alfarið um gír og einbeittu sér þá að ferðaþjónustunni. Í Görðum er nú hin myndarlegasta aðstaða fyrir ferðafólk og kemur þangað fjöldi gesta ár hvert. Símon og Svava seldu Gistihúsið Langaholt til sonar síns Þorkels, eða Kela í Görðum eins og hann er jafnan kallaður, árið 2006 og sér hann nú um reksturinn ásamt unnustu sinni Rúnu Björg Magnúsdóttur. Hjónin búa nú í Borgarnesi en þau hafa þó ekki slitið sig frá Görðum og dvelja þar á sumrin þar sem þau aðstoða son sinn og tengdadóttur við reksturinn. Blaðamaður Skessuhorns tók hús á Símoni á dögunum og ræddi m.a. við hann um reynslu sína af störfum í ferðaþjónustunni og ljóðagerð sem hann hefur fengist við síðustu ár.
Símon er fæddur á bænum Einarsnesi í gamla Borgarhreppi árið 1934, en faðir hans, Sigurmon Símonarson, var þá bóndi þar og eigandi jarðarinnar. „Pabbi var nokkuð umsvifamikill og átti einnig Knarrarnes úti fyrir Mýrum um tíma. Ég hóf skólagöngu meðan við bjuggum í Einarsnesi og gekk í skóla hjá Brennistöðum þar sem nú er félagsheimilið Valfell. Síðar fluttum við á Akranes og vorum þar í tvö ár áður en við fluttum vestur á Snæfellsnes. Á Akranesi komst ég í kynni við ekki ómerkari mann en séra Friðrik Friðriksson í gegnum KFUM starfið sem þar var í gangi. Maður lærði ýmislegt hjá þeim mæta manni og var hann eftirminnilegur maður á allan hátt,“ segir Símon um æskuár sín. „Ég á marga ættingja vegna uppruna míns í Borgarfirði. Pabbi var Borgfirðingur og sömuleiðis móðir mín, Jórunn Helgadóttir frá Þursstöðum. Ég hef þó búið nær allt mitt líf fyrir vestan og þess vegna hef ég hvað sterkastar tengingar þangað,“ bætir hann við.
„Þetta kom nú allt saman smátt og smátt,“ segir Símon spurður um uppbygginguna að Görðum. „Við Svava rákum nokkurs konar kotbúskap með nokkrar rollur í Görðum um það leyti sem við byrjuðum í ferðaþjónustunni. Ég man að ég átti leið til Ólafsvíkur snemma árs 1977 og keypti Morgunblaðið í leiðinni. Þar rakst ég á auglýsingu frá Flugleiðum þess efnis að vantaði herbergi fyrir erlenda ferðamenn sem vildu dvelja á sveitaheimilum á Íslandi í sumarfríum sínum. Við rituðum bréf í framhaldinu til Flugleiða og buðum eitt herbergi sem við höfðum til leigu. Um sumarið komu nokkrir gestir og dvöldu hjá okkur. Við fundum að þetta starf átti vel við okkur og því var afráðið að halda áfram að bjóða upp á herbergi til gistingar næstu sumur. Árið 1984 hófum við síðan að byggja upp grunninn að þeirri aðstöðu sem nú er Gistihúsið Langaholt. Við hættum búskap tveimur árum síðar og einhentum okkur í að sinna þjónustu við ferðamenn,“ segir Símon sem bætir því við að þau hjón hafi fundið sig vel í nýjum verkefnum. „Svava er til dæmis með alveg einstaka þjónustulund og á afskaplega gott með að umgangast fólk. Þar að auki er hún afbragðs kokkur þannig að það má segja að hún hafi alveg verið fædd í þetta hlutverk á margan hátt. Svona vill þetta verða stundum,“ bætir hann við.
Með tíð og tíma byggðist upp góð aðstaða að Görðum. Elsta álman í gistihúsinu var byggð árið 1984 og með árunum bættust fleiri við. Nú er þar að finna 20 gistiherbergi, öll með baði og veitingastað sem sérhæfir sig í sjávarréttum. Tjaldstæði hefur verið byggt upp á staðnum og einnig níu holu golfvöllur en sendið landslag jarðarinnar hentar einkar vel fyrir uppbyggingu slíkra mannvirkja. „Það tók sinn tíma að byggja upp í byrjun og voru ýmis ljón í veginum sem þurfti að eiga við. Þegar við vorum að hefja uppbygginguna á níunda áratugnum var viðhorfið til ferðaþjónustunnar ekki það sama og er í dag. Mikil stemning var fyrir búgreinum á borð við loðdýrarækt og við fundum að ferðaþjónustan var kannski ekki eins álitleg hjá mörgum og aðrar nýjungar. Við þetta má bæta svona til fróðleiks að bjórsölubannið á Íslandi hamlaði lengi vel vexti ferðaþjónustunnar á Íslandi en það var við lýði þegar við hófum rekstur. Svona getur tíðarandinn verið sérstæður,“ segir Símon. Góða aðstoð fengu þau á upphafsárum ferðaþjónustunnar í Görðum og nefnir Símon sérstaklega Kristleif Þorsteinsson á Húsafelli sem hafi gefið þeim Svövu góð ráð. „Kristleifur var mjög úrræðagóður og var gott að leita til hans um ýmis mál tengd ferðaþjónustunni. Við Svava komum svo að stofnun Ferðaþjónustu bænda með honum og fleirum á níunda áratugnum og erum við meira að segja handhafar hlutabréfs númer tvö í því öfluga fyrirtæki. Þá voru bræður Svövu frá Dalsmynni, þeir Ágúst (Gösli) og Guðmundur okkur innan handar við byggingaframkvæmdir ásamt börnum okkar og var þeirra hjálp alveg ómetanleg.“
Af reynslu sinni að dæma segir Símon ljóst að þrjú atriði þurfi að vera á hreinu til að ná góðum árangri í rekstri gistiheimilis á borð við Langaholt í Staðarsveit. „Í fyrsta lagi þá þarf starfsemin að vera á athyglisverðum stað með góðu útsýni. Í Staðarsveitinni njótum við þess ríkulega, höfum Snæfellsjökulinn blasandi í allri sinni dýrð, strönd Faxaflóa og fjallgarðinn allt í kring. Nóg er að gera og sjá í nágrenni við okkur og því er staðsetningin afar hentug. Í öðru lagi þarf húsnæði að vera þægilegt og þá þarf maturinn að vera góður. Herbergin hjá okkur eru í stærri kantinum, um 20 fermetrar og það virðist vera eftirsóknarvert af gestum. Þá hefur sýnt sig að mikilvægt er að bjóða gestum upp á sjávarrétti og hefur veitingastaður Langaholts sérhæft sig í að framreiða fisk sem veiddur er á Snæfellsnesi. Útlendingar eru sérstaklega sólgnir í fisk og kjósa hann miklu frekar en kjöt. Að lokum þarf þjónustan að vera lipur. Skiptir töluverðu máli að sýna gestum áhuga og hafa húmorinn í lagi. Stundum kom fyrir að við fengjum gesti sem varla hafði verið yrt á nema til að rukka fyrir þjónustu. Þessir gestir voru þá búnir að vera á ferð um landið í nokkurn tíma,“ segir Símon.
Um helmingur gesta sem kemur að Görðum kemur erlendis frá og segir Símon að flestir hafi komið frá Þýskalandi í áranna rás. Símon hefur leitast eftir því að kynnast menningu heimalanda hinna erlendu gesta til að vera betur í stakk búinn að spjalla við þá um þeirra hugðarefni og hefur þýskukunnátta hans nýst vel vegna þessa. „Ég lærði þýsku þegar ég var í skóla sr. Þorgríms Sigurðssonar á Staðarstað hér í Staðarsveit en síðan þá hefur maður bara prófað sig áfram. Kunnáttan kom sér vel þar sem svo margir Þjóðverjar hafa komið og gist hjá okkur. Þeim finnst þetta heimilislegt og bera vott um öryggi hef ég tilfinningu fyrir. Þó svo að ferðamenn séu á framandi slóðum hjálpar verulega til að þar sé eitthvað að finna sem minnir á heimahagana. Í leiðinni hef ég svo getað þjálfað þýskukunnáttu mína sem ég þakka mikið fyrir,“ segir Símon sem les þýsk blöð reglulega en sjá mátti nýjasta hefti þýska fréttatímaritsins Der Spiegel á stofuborðinu hjá honum þegar blaðamaður ræddi við hann. „Að auki kann maður hrafl í hinum og þessum málum sem maður getur notað til að afgreiða ýmis mál sem upp geta komið hjá gestum. Þetta lærist allt með árunum og gildir mestu að hafa áhuga og prófa sig bara áfram.“
Símon segir langflesta erlenda ferðamenn koma til landsins af einhverri merkilegri ástæðu. „Það er mikilvægt af þessum sökum að sýna gestum áhuga. Ferðir til Íslands eru dýrar og er fólk því að leggja nokkuð á sig til að koma hingað til að kynnast landi og þjóð. Þeim er líka annt um að einhver vilji kynnast því sjálfu og þeirra heimahögum. Því eru litlar spurningar á borð við „Hvað gerir þú“ eða „Hvaðan kemur þú“ mikilvægar. Fólk er afar þakklát þegar maður leitar eftir því að kynnast því á þessum nótum,“ segir Símon. „Hvað matinn snertir þá er mikilvægt að bjóða gestum upp á fisk. Útlendingar eru sólgnir í góðan fisk og hefur reynslan kennt okkur að þeir vilji fiskinn miklu frekar en lambakjöt svo dæmi sé tekið. Sem betur fer er nóg af fiski við Snæfellsnes og finnst gestum það enn betra að fiskurinn sé ættaður úr nágrenninu. Þorkell sonur okkar er núna iðinn við að finna nýjar leiðir í matreiðslu á fiski og hefur verið gert út á sérstöðu fisksins á veitingastað Langaholts. Kjöt er þó á matseðlinum fyrir þá sem það vilja en til dæmis vilja Íslendingar oft fremur kjöt en fisk.“
Eins og fram hefur komið er rekstur ferðaþjónustunnar í Görðum nú í höndum Kela og Rúnu. „Við erum þó ekki alveg búin að segja skilið við ferðaþjónustuna þó svo að við séum hætt að reka gistihúsið. Við hjálpum til á sumrin þegar mest er að gera. Þá sér Svava um morgunmatinn meðan ég sinni tjaldstæðinu. Það er fróðlegt að sýslast á tjaldstæðinu en þar dvelur annar hópur fólks en er inni í gistihúsinu og er gaman að kynnast honum. Á sumrin dveljum við á Görðum en á veturna búum við í húsi okkar við Þórunnargötu í Borgarnesi,“ segir hann.
Í áranna rás hafa Símon og Svava ferðast erlendis og heimsótt fjölmörg lönd. „Það hefur verið gaman að ferðast um lönd og setja sig í spor ferðamannsins. Ferðalögin gefa manni tækifæri til að kynnast hinni hliðinni á ferðaþjónustunni. Þetta hjálpar til í störfum okkar. Við höfum farið til fjölbreyttra landa á ferðalögum okkar svo sem til Rússlands, Úkraínu, Ísraels, Kýpur og Egyptalands en einnig til margra Evrópulanda. Egyptalandsförin var sérlega eftirminnileg þar sem við sáum pýramídana með eigin augum en einnig var heimsókn okkar til gömlu Stalíngrad við Volgubakka í Rússlandi minnisstæð. Ég tel mikilvægt fyrir alla sem hafa kost á að skoða heiminn. Það er til svo mikið af fróðlegum og skemmtilegum stöðum að heimsækja.“
Símon er nú orðinn 78 ára og er við hestaheilsu að eigin sögn. Síðustu ár hefur hann fundið sér ýmislegt til afþreyingar og er kannski helst að nefna að fyrir tæpum fimm árum helltist yfir hann þörf til að yrkja. „Það má segja að ég hafi tekið sótt í ljóðagerðinni og hef ég sett saman kvæði í bók sem ég á og er merkt Ungmennafélagi Staðarsveitar. Ég hef sett saman kvæði m.a. á þýsku og ensku en flest eru þau á íslensku. Þetta eru orðin þónokkur kvæði núna og fer held ég bara fjölgandi, alla vega svo lengi sem skáldskaparandinn er með mér,“ segir Símon kíminn. Hann var svo almennilegur að deila einu af kvæðum sínum með lesendum Skessuhorns að endingu. Vísan var ort í lok síðasta árs en hún er einkum ætluð tónlistarskáldum og ungu fólki. Hún hljóðar svo:
Ef gefurðu blessun bros og hrós
þá birtir hjá okkur öllum.
Framtíðin er eins og ótínd rós
á ókunnum blómsturvöllum.
Á sumardögum sólin skín
hún seint til viðar rennur.
Ég er að koma elskan mín
því ástin hjá mér brennur.
Í ykkar faðmi allt er nýtt,
unga kona og drengur.
Allt er mjúkt og allt er hlýtt
og enginn tími lengur.
Við heyrum okkar hjörtu slá
þá hverfur dagsins vandi
okkar von og okkar þrá
endar í hjónabandi.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is