Framkvæmdir við stækkun gistihússins að Langaholti í Staðarsveit á Snæfellsnesi ganga vel. Þegar þeim lýkur tvöfaldast herbergjatalan, fer úr 20 í 40. Nýju herbergin eru öll tveggja manna með baði. Einnig verður tekin í notkun ný móttaka og mun gamli inngangurinn leggjast af þegar nýi hlutinn verður kominn í gagnið.
Þorkell Símonarson, Keli vert, er eigandi gistihússins. Hann kveðst í samtali við Skessuhorn vonast til að sex herbergi verði tilbúin í næstu viku. Stefnt sé að því að framkvæmdunum ljúki svo í janúar á næsta ári ef allt gengur að óskum. Aðspurður um ástæðu þess að farið var í þessar framkvæmdir segir Keli að eftirspurn eftir gistingu á svæðinu hafi aukist til muna og starfið sé orðið þannig að það þurfi að vera til taks alltaf. Það kallar svo á að hafa nægt starfsfólk sem auðvitað þurfi aðstöðu fyrir og því sé erfitt að vera með litla einingu. Keli segir að það sem hafi einkennt ferðaþjónustu í sveitum landsins fyrir 20 til 25 árum sé nú liðin tíð. Nú dugi ekki að reka ferðaþjónustu samhliða búskap og einingin verði að vera ákveðið stór til að stærðarhagkvæmni náist fram. Telur hann að í raun megi þessi stækkun ekki vera seinna á ferðinni.
Langaholt
Görðum Staðarsveit
356 Snæfellsbær
Ísland
Sími: 435 6789
langaholt@langaholt.is